Nr. 4 Umhverfing | No 4 Around
Nr. 4 Umhverfing | No 4 Around
MYNDLISTAVERKEFNIÐ NR4 UMHVERFING – SUMARIÐ 2022
Markmið verkefnisins nr. 4 Umhverfing er ferðalag um Dali, Strandir og Vestfirði til að kynna menningu og náttúru með myndlist á hefðbundnum og óhefðbundum sýningastöðum og í samstarfi við nærsamfélagið á hverjum stað og skapa umræðu um tilgang lífs og lista. Grunnhugmyndin er að sýna verk eftir myndlistarmenn sem búa eða eiga ættir eða tengsl að rekja til þessa landshluta. NÁNARI
LÝSING
Akademía skynjunarinnar stendur að menningarverkefninu Umhverfing. Forsvarsmenn Akademíunnar eru Anna Eyjólfs, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær eru jafnframt skipulags og verkefnastjórar verkefnisins ásamt Jóni Sigurpálssyni, myndlistarmanni á Ísafirði. Grunnhugmyndin er að sýna verk eftir myndlistarmenn sem búa í eða eiga ættir að rekja til þess landshluta sem sýnt er í hverju sinni og að þeir myndlistarmenn séu virkir í sköpunarstarfi sínu, eða hafi verið það séu menn látnir.
Markmið verkefnisins UMHVERFING er að ferðast umhverfis landið og kynna myndlist í óhefðbundum sýningarrýmum í samstarfi við heimamenn á hverjum stað og skapa umræðu um tilgang lífs og lista. Markmið verkefnisins er einnig skrásetning sýninganna með útgáfu bóka og leiðarvísa með hverri sýningu.
Nr 4 Umhverfing er fjórða sýning í sýningarröð verkefnisins UMHVERFING sem er ætlað að efla myndlist í öllum landshlutum, nú í Dölum og á Vestfjörðum og Ströndum sumarið 2022. Menningar og listrænt gildi verkefnisins er m.a. að gefa fólki kost á að upplifa nútímamyndlist, fræðast um listaverkin og fá tækifæri á samtali við listamennina. Einnig mun verkefnið opinbera þau verðmæti sem ekki eru öllum kunnug en eru fólgin í þeim listamönnum sem eiga rætur að rekja til Vestfjarða eða hafa þar búsetu í dag. Innflytjendur eru stór hluti íbúa vesturlands og vestfjarða og býður verkefnið listamönnum af öllum uppruna velkomna til að sækja um þátttöku í verkefninu. Bæði mun það auka menningarlega fjölbreytni og tengja ólíka menningarheima. Það var áhugaverð uppgötvun þegar við áttuðum okkur á því hvað ótrúlegur fjöldi okkar þekktustu myndlistarmanna á ættir að rekja til Vestfjarða, Stranda og Dala.
Við höfum kynnst því í gegnum verkefnið Umhverfing hvað það rýkur upp mikill ættfræði áhugi og menn fara að leita eftir tengslum svona til að geta heimsótt slóðir forfeðra/mæðra eða minningarbrot um hrikalega náttúru og fjölbreytni í mannlífi staðanna, grónir balar og tún skapa löngun listamanna til að horfa til himins til fjalla,dala,lækja og sjálfu hafinu í sköpun sinni því að á þessum stöðum er ekki hægt að koma ósnortin til baka úr slíkri upplifun. Sýningar verða settar upp vítt og breytt um Vestfirði, Strandi og Dali í byrjun sumars 2022 og standa út ágúst á hverjum stað sem gefur möguleika á samstarfi við skólana á svæðinu. Myndlistarsýningar verða settar upp á stöðum og í húsnæði þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum og þar sem oft fyrirfinnst ekki hefðbundið sýningarhúsnæði fyrir myndlist. Hugmyndin er að nýta t.d. eyðibýli og önnur mannvirki til sýningarhalds einnig önnur svæði og þá í samráði við eigendur lands og húsnæðis og sveitastjórna. Hinn almenni ferðamaður, list- og náttúruunnandi og áhugamaður um sögulegar slóðir, hefur hér möguleika á að fara í menningarlegt ferðalag um Vestfirði og Dali sem verður varðað listaverkum. Fólk fer víðar ef það hefur erindi og uppgötvar um leið nýja staði og upplifanir.
Nr 1 Umhverfing var haldin 2017 í Skagafirði með verkum 13 listamanna.
Nr 2 Umhverfing var á Egilsstöðum 2018 með þátttöku 37 listamanna.
Nr 3 Umhverfing var dreifð um allt Snæfellsnes 2019 með verkum 71 listamanns og er ein sú stærsta samsýning sem haldin hefur verið á Íslandi.
Sýningarnar hafa orðið umfangsmeiri með tímanum og væntalega verður sýningin Nr 4 Umhverfing á Vestfjörðum enn viðameiri og stærri en Nr 3 Umhverfing á Snæfellsnesi. Nr 4 Umhverfing verður ferðalag með sýningum og listaverkum vítt og breitt um Vestfirði, Strandir og Dali sumarið 2022. Sýningarnar eru settar upp í samstarfi við heimamenn á hverjum stað.
Nr. 4 Umhverfing verður kynnt í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og á heimasíðum þeirra sem koma að sýningunni. Boðið verður upp á fyrirlestra, samræður, listaverkagöngur og hópferðir milli sýningarstaðanna með leiðsögn. Hægt verður að lesa um listaverkin og listamennina í bók, bæklingi, á samfélagsmiðlum og á Appi. Kort af staðsetningu listaverkanna verður útbúið bæði í prentuðum bækling og einnig á Google Map þar sem sjá má nákvæmari staðsetningu verkanna.